top of page

Foreldrar sem fyrirmyndir

Lestur er fjölskylduverkefni

Lestur er ævilöng iðja. Þótt skólinn hafi mikilvægu hlutverki að gegna í lestrarkennslu barna eru viðhorf foreldra til lestraruppeldis afar mikilvæg. Jákvæð viðhorf foreldra til lesturs hafa mótandi áhrif á börn og eru mikilvægur þáttur í því að gera lestur að daglegri venju. 

Menntun og velferð nemenda er sameiginlegt verkefni heimila og skóla og samstarfið þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu, trausti og upplýsingamiðlun beggja aðila, sameiginlegum ákvörðunum og samábyrgð. Mesta áherslu ber að leggja á samstarf heimila og skóla um hvern einstakling, nám hans og velferð og að heimili og skóli séu vettvangur menntunar. (AG - Tengsl heimila og skóla 14).

 

Lestrarkennslan í skólanum er aðeins hluti af námsferlinu, lestrarþjálfun heima við undir styrkri stjórn forráðamanna er alveg jafn mikilvæg. Til þess að foreldrar geti staðið þétt við bakið á börnum sínum í lestrarnáminu þurfa þeir að vita til hvers er ætlast af þeim og því er fræðsla til foreldra mikilvægur þáttur í stefnu skólans. (samstarf heimila og skóla)

 

Gott mál er grunnur að því að barninu vegni vel í námi. Gefðu þér tíma til að tala við barnið og veittu því óskipta athygli, því þú sem foreldri hefur mest áhrif á málskilning og lesskilning barnsins.

 

  • Finndu tíma til að hlusta á barnið þitt lesa.

  • Sýndu áhuga á því sem barnið les og tjáir sig skriflega um.

  • Komið ykkur þægilega fyrir, sitjið saman. Hafið ekki sjónvarp eða annað í gangi sem gæti truflað.

  • Áður en lestur hefst, skoðið saman bókarkápuna og teikningar í bókinni og spáið fyrir um hvað textinn gæti verið.

  • Hvetjið barnið til að setja rödd og líf í lesturinn.

  • Þegar lesið er aftur eftir hlé, hvetjið barnið til að rifja upp það sem verið var að lesa.

  • Ræðið textann, spyrjið, spáið fyrir um framhald og tengið efnið við daglegt líf.

 

Hjálpaðu barninu þínu að leita sér þekkingar á því sem það hefur áhuga á með því að tala um það sem þið:

  • sjáið í sjónvarpinu,

  • heyrið í útvarpi,

  • lesið í bókum, blöðum eða á netinu.

Leiðir í heimalestri

Heimalestur upphátt a.m.k. 5 daga vikunnar

  • Barnið og foreldrið geta skipst á að lesa.

  • Bjóðist til að lesa fyrir tiltekna persónu í sögunni.

  • Kórlestur: foreldri og barn lesa saman upphátt.

  • Bergmálslestur: foreldri les setningu fyrir setningu upphátt fyrir nemanda. Nemandinn fylgir orðunum með fingri og endurtekur það sem lesið var.

 

bottom of page