top of page

Lesblindir eiga rétt á aðgangi að Hljóðbókasafni Íslands 

www.hbs.is

Líklegra er að barn lesi ef það hefur eitthvað skemmtilegt að lesa. Sjálfsagt er að eiga bækur heima fyrir þegar andinn kemur yfir okkur en einnig getur verið áhrifaríkt að gerast áskrifandi að áhugaverðu efni. Einfalt er að útvega sér bækur í gegnum netið ef til er snjalltæki á heimilinu. Auk þessa er gaman að gera sér ferð á bókasafn, lesa þar og fá lánaðar bækur sem hæfa aldri barns og þroska.

Ef barnið ræður ekki sjálft við texta er tilvalið að lesa fyrir það og fá hljóðbækur að láni. Þannig kynnist barn sem á erfitt með lestur þeim orðaforða og þeirri þekkingu sem læsir jafnaldrar fást við. Fylgist með að barnið fái hljóðbækur í lesgreinum sé þess þörf en þess fyrir utan geta hljóðbækur gagnast öllum börnum og verið ágætis tilbreyting. Gagnlegt getur verið að lesa saman bók sem gerð hefur verið kvikmynd eftir og horfa síðan á myndina að lestri loknum, eða öfugt. Horfa á kvikmynd og lesa síðan bókina. Þá má ræða mismunandi upplifanir af lestri bókarinnar og bera saman við áhorf myndarinnar.

Stundum skortir viljann eða lestrarhvötina. Til að örva áhuga á lestri er nauðsynlegt að gefa börnum kost á að hafa hönd í bagga með hvað þau lesa. Um leið og lestrarefnið snýst um eitthvað sem vekur athygli þeirra og áhuga eykur það alla jafna hvatann til að lesa. Fyrst kemur viljinn og getan fylgir í kjölfarið. Gott aðgengi að bókum bætir læsi og því er mikilvægt fyrir öll börn að geta auðveldlega nálgast bækur. Þá er rétt að nefna að börn geta fengið bókasafnsskírteini endurgjaldslaust.

bottom of page