Hljóðaaðferð
Grundvallaratriði hljóðaaðferðarinnar er að nemendur skilji að bókstafirnir tákna hljóð orðanna í talmálinu. Helsti kostur aðferðarinnar er að nemendur læra skilvirka tækni til að lesa stöðugt ný og ný orð sem koma fyrir í texta. Durkin (1978-1979) skilgreinir hljóðaaðferðina sem „hverja þá aðgerð sem kennari beitir til að kenna nemendum að umskrá orð“.
-
Eftirfarandi aðferð er kölluð „samtengjandi og sundurgreinandi aðferð“: Nemendur læra heiti bókstafanna, hvaða hljóð þeir eiga og hvernig á að tengja hljóð þeirra saman í orð. Nemendur geta fljótlega farið að lesa stutt orð og einfalda texta sem innihalda þá stafi sem þeir eru búnir að læra. Nemandinn segir hljóð stafanna í orðunum með því að ,,hljóða sig gegnum orðin". Þetta kallast að umskrá orðið, en það felst í því að nemandinn verður að geta aðgreint (sundurgreint) öll hljóðin í orðinu til þess að greina hljóm orðsins, og heyrt hvaða orð hann er að lesa. (Dæmi: sólin s-ó-l-i-n (sundurgreining) = sólin (samtenging). Lögð er áhersla á að lesa stutta, einfalda, merkingarbæra texta sem stigþyngjast eftir því sem nemendur þjálfast í lestrinum. Þannig verða orðin smám saman erfiðari í umskráningu og innihald textans stöðugt flóknara, þannig að meira reynir á lesskilning.
Byrjendalæsi
Kennslukerfið Byrjendalæsi hefur verið notað í 1. og 2. bekk við Grunnskóla Fjallabyggðar. Vinna með tal, hlustun lestur og ritun er samofin í eina heild og unnið er í hópavinnu og um leið er einstaklingsþörfum mætt.
Hér fyrir neðan má sjá kynningarmyndband og upplýsingar um Byrjendalæsi frá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri:
Myndband - https://www.youtube.com/watch?v=145lNe5nH-k
Upplýsingar - https://www.msha.is/is/moya/page/byrjendalaesi
Læsisfimman - The Daily 5
Læsisfimman samanstendur af fimm viðfangsefnum: sjálfstæðum lestri, vinnu að ritun, félagalestri, orðavinnu og hlustun á lestur. Mikil áhersla er lögð á vinnu með lesskilning, nákvæmni, lesfimi og orðaforða.
Lögð áhersla á sjálfstæði og að nemendur byggi upp vinnuúthald sem gerir það að verkum að á meðan nemendur vinna sjálfstætt gefst kennaranum tækifæri að vinna að ákveðnum þáttum með einstaklingum eða litlum hópum.
Auk þess fylgir kerfinu ákveðnar hegðunarvæntingar sem hjálpa nemendum að halda sig betur að verki og nýta tímann sinn vel. Að byggja upp námssamfélag er einnig miklvægur þáttur því við erum að læra saman þó við séum að læra að vera sjálfstæð.
Upplýsingar - https://www.thedailycafe.com/
Heimildir: http://lesvefurinn.hi.is/hljodaadferd