top of page

UM LÆSISSTEFNU

 

Læsisstefna Grunnskóla Fjallabyggðar verður til í kjölfar undirritunar Þjóðarsáttmála

um læsi. Læsisstefnan markar sameginlega sýn, ábyrgð og samvinnu, ásamt því að

skuldabinda okkur til að efla þátttöku og ánægju af lestri í samfélaginu. Áhugahvöt

er talin hafa mjög sterka fylgni við námsárangur nemenda. Á sama hátt telja margir

kennarar að áhugaleysi gagnvart námi sé rót margvíslegra vandamála í námi. Oft er

talað um „Matteusar áhrifin“ í þessu sambandi, sem vísa til gagnvirks sambands á

milli iðkunar og árangurs.

 

Góðir lesarar lesa yfirleitt mikið vegna þess að þeir hafa áhuga á að lesa og aukinn lestur eykur orðaforða og færni. Slakur lesari les yfirleitt lítið og bilið á milli þessara tveggja verður sífellt breiðara. Hafa verður í huga að nemendur í 1.-3. bekk eru að  læra að lesa og að nemendur 4. bekk og upp úr eru að lesa til að læra. Til þess að svo megi verða þarf öfluga og markvissa lestrarkennslu og þjálfun út alla skólagönguna til þess að viðhalda þróun lestrarfærninnar.

 

Ljóst er að með gerð læsisstefnu erum við að skuldbinda okkur til að fylgja sameiginlegu markmiði til eflingu læsis í samfélaginu. Læsisstefna þarf að vera lifandi, spennandi og taka breytingum eftir þörfum. Hún er vinnuplagg til að hjálpa okkur að ná betri árangri og einnig til þess að bregðast við erfiðleikum og lestrarvanda.

​

Allir kennarar eru virkir þátttakendur í læsisnámi nemenda.

 

Allir foreldrar eru virkir þátttakendur í læsisnámi barna sinna.

 

Við erum alltaf að læra, aukum orðaforða okkar og hugtakaþekkingu, eflum lestur, lesskilning og ritunarfærni allt lífið.

​

Skilgreining á læsi

​

Að vera læs er ekki bara það að geta umskráð hljóð stafa í orð, setningar og heilu málsgreinarnar. Lestur er til lítils ef skilningur fylgir ekki með og að öðlast góðan lesskilning er erfiðleikum háð nema tæknilegur grunnur í lestri sé traustur, þ.e. að nemandinn hafi öðlast lesfimi.

Góð lestrarfærni er undirstaða ævináms og þess að geta aflað sér upplýsinga sem gera kleift að taka virkan þátt í lífi og menningu þjóðarinnar (AG -lestur og bókmenntir 19.12)

​

​

​

​

Læsisstefna Grunnskóla Fjallabyggðar

bottom of page